UM OKKUR

Árið 2001 var litlu fræi sáð sem óx og dafnaði í gegnum árin. Úr varð eitt stórt ævintýri og ein stór fjölskylda sem í dag ber nafnið Slitnir Strengir.

 

Óhætt er að fullyrða að hljómsveitin hefur fest rætur sínar af slíkum mætti að ógerlegt hefur verið að rífa þær upp. Hópurinn hefur í gegnum árin myndað einstaka heild í gegnum vinnu sína með æfingum, ferðalögum, tónleikum og tóngjörningi að samstaðan og tengslin sem myndast hafa verða seint eða aldrei rofin.

Það er ótrúlegt og jafnframt töfrandi hve áhrifamáttur tónlistarinnar er.

Í gegnum tíðina hafa Slitnir Strengir jafnt og þétt styrkt böndin sín á milli en um leið byggt sterk tengsl út í samfélagið.

 

Mótttökurnar hafa verið frábærar og erum við þakklát öllum þeim sem hafa verið okkur hvatning og stuðningur á þessu skemmtilega ferðalagi.

Slitnir Strengir saman stendur af 19 fiðluleikurum og söngvurum, ásamt þremur meðleikurum sem eru Birgir Þórisson, píanó/írsk tromma, Eiríkur Guðmundsson / slagverk og Sigurþór Þorgilsson / bassi.
Aðal einkenni Slitinna Strengja er að á tónleikum sínum blanda þau saman hljóðfæraleik,söng og talkór og afraksturinn skilar sér í einu heilsteyptu verki.

Fiðluleikarar hópsins hafa flest allir stundað nám við Tónlistarskólann á Akranesi og nokkrar þeirra eru enn í klassísku námi við skólann. Slitnir Strengir hafa komið fram víða hér á landi og m.a. komið fram á tónleikum á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði, Hofi á Akureyri, Stokkseyri, Reykholti. Einnig hefur sveitin haldið tónleika sína á stóra sviði Borgarleikhússins og í Hörpunni Reykjavík. Hópurinn hefur ferðast til Danmerkur, Skotlands, Þýskalands og Frakklands og alls staðar fengið ótrúlegar móttökur og viðbrögð tónleikagesta. Slitnir Strengir hafa gefið út tvo geisladiska, „Milli tveggja heima“, sem kom út árið 2007 og ,,Slitnir Strengir" sem kom út árið 2017.